Hoppa yfir valmynd
Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema

1/2022 A gegn Háskóla Íslands

Ár 2022, 19. október, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Elvar Jónsson lögmaður og formaður nefndarinnar, Eva Halldórsdóttir lögmaður og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson lögfræðingur málinu 

 

nr. 1/2022

A

gegn

Háskóla Íslands

 

með svohljóðandi

Á L I T I

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru A, dags. 20. apríl 2022, sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema með tölvupósti þann sama dag, þar sem kærð var málsmeðferð háskólaráðs Háskóla Íslands á gagnabeiðni kæranda frá 23. desember 2021 („“ eða „skólinn“).

Nefndin óskaði eftir athugasemdum HÍ við kæruna þann 13. maí 2022. Viðbrögð HÍ bárust með tölvupósti 30. maí 2022.

Þann 12. júní 2022 lagði kærandi fram aðra kæru gagnvart HÍ. Nefndin innti kæranda eftir því hvort að hann vildi að sú kæra yrði sameinuð því máli sem þegar var til meðferðar varðandi málsmeðferð HÍ. Kærandi óskaði eftir því að málin yrðu tekin fyrir hvort í sínu lagi. Fulltrúi HÍ gerði ekki athugasemd við það fyrirkomulag.

Nefndin fundaði með kæranda og fulltrúa HÍ þann 16. júní 2022 þar sem þeir komu sjónarmiðum sínum á framfæri munnlega. Fram kom á fundinum að ekki yrði frekari gagnaframlagning af hálfu málsaðila og að byggt væri á þeim gögnum sem þegar lægju fyrir í málinu.

Kæra kæranda snýr að málsmeðferð HÍ á erindi hans frá 23. desember 2021. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema er nemendum heimilt að bera undir nefndina hvort málsmeðferð háskóla á skriflegu erindi hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti, og skal nefndin þá veita álit sitt um það efni.

II.

Málsatvik

Kærandi var nemandi í MBA-námi við HÍ. Á haustönn 2021 tók kærandi áfangann Nýsköpun 115F sem er hluti af MBA-námi við HÍ.

Með bréfi til HÍ, dags. 23. desember 2021, óskaði kærandi eftir tilteknum upplýsingum og gögnum í tengslum við námsmat kennara fyrir matsþáttinn „þátttöku og virkni“ í áfanganum, en fyrir þann matsþátt hafði kærandi fengið einkunnina 0. Nánar tiltekið óskaði kærandi í stuttu máli eftir eftirfarandi gögnum:

  1. Afriti af öllum gögnum sem kennari byggði á við mat sitt á einkunn fyrir matsþáttinn „þátttaka og virkni“ í áfanganum.
  2. Ástæðu þess að kennari gaf kæranda ekki kost á að kynna sér og tjá sig um neikvæð ummæli sem kennari fékk frá þriðja aðila og kennari byggði á við mat sitt á einkunn fyrir matsþáttinn „þátttaka og virkni“.
  3. Upplýsingar um hvernig kennari gætti samræmis og jafnræðis við mat á einkunnum nemanda.
  4. Upplýsingar um lagaheimild kennara fyrir rafrænu eftirliti á Canvas, námsumsjónarkerfi HÍ.
  5. Ópersónugreinanlegum upplýsingum sem sýndu fjölda þeirra nemenda sem ekki spurðu kennara a.m.k. einnar spurningar í tíma, fjölda nemenda sem ekki tóku þátt í skrifa a.m.k. eina athugasemd í Canvas og fjölda nemenda sem gerðu hvorugt.
  6. Ópersónugreinanlegum upplýsingum sem sýndu sundurliðun einkunna nemenda áfangans fyrir matsþáttinn „þátttöku og virkni“.

Þann 14. febrúar 2022 sendi kærandi tölvupóst á forstöðumann viðskiptafræðideildar þar sem óskað var upplýsinga um hvenær fyrirspurn hans frá 23. desember 2021 yrði svarað, en eftir því sem fram kemur í fyrirliggjandi gögnum höfðu kæranda þá ekki borist svör við upphaflegu erindi.

Með tölvupósti þann 15. febrúar 2022 barst svar frá forstöðumanni viðskiptafræðistofnunar HÍ við erindi kæranda. Beiðni kæranda um aðgang að gögnum var hafnað að hluta til með vísan til þess að hluti gagnabeiðni kæranda snérist um trúnaðargögn milli kennara og nemenda og að öðru leyti vísað til þess að einstök gögn væru ekki til eða aðgengileg.

Sama dag svaraði kærandi tölvupóstinum og óskaði m.a. eftir leiðbeiningum um kæruleiðir innan HÍ.

Þann 17. febrúar 2022 svaraði forstöðumaður viðskiptafræðideildar HÍ erindi kæranda og upplýsti um mögulegar kæruleiðir. Í tölvupóstinum var vísað til þess að um ferli kvartana og kærumála nemenda væri fjallað í 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, m.a. um hvert skuli senda erindi telji nemandi að brotið hafi verið á rétti sínum varðandi m.a. námsmat og einkunnagjöf.

Sama dag sendi kærandi kvörtun til deildarforseta viðskiptafræðideildar með tölvupósti og þann 28. febrúar 2022 ítrekaði kærandi erindi sitt. Deildarforseti svaraði tölvupósti kæranda 28. febrúar 2022 þar sem hann staðfesti móttöku kvörtunarinnar og kvaðst svara erindinu eins fljótt og auðið væri. Kærandi svaraði tölvupósti deildarforseta og tók m.a. fram að málsmeðferðartími HÍ væri kominn fram úr hófi þar sem liðnir væru rúmir tveir mánuðir frá því að kærandi sendi beiðni sína í desember 2021. Deildarforseti svaraði tölvupósti kæranda sama dag og vísaði til þess að formleg kvörtun kæranda hefði borist 17. febrúar 2022 og að reynt yrði að afgreiða erindi kæranda eins fljótt og kostur væri.

Kærandi ítrekaði erindi sitt í tölvupósti til deildarforseta 11. mars 2022 og með svari sama dag upplýsti deildarforseti að unnið væri að svari við erindi kæranda. Kærandi ítrekaði erindi sitt á ný með tölvupósti 24. mars 2022 og vakti þar athygli á því að málsmeðferðartími HÍ væri orðinn rúmir þrír mánuðir og að hann teldi það langt fram úr hófi miðað við eðli fyrirspurnar hans. Deildarforseti viðskiptafræðideildar svaraði kæranda sama dag og vísaði til þess að erindi kæranda hefði borist deildarforseta þann 17. febrúar og að frestur til afgreiðslu skv. reglum HÍ væri tveir mánuðir. Það væri þó útlit fyrir að afgreiðsla erindisins myndi taka styttri tíma en ekki væri hægt að lofa nákvæmri dagsetningu.

Þann 31. mars 2022 barst kæranda niðurstaða deildarforseta viðskiptafræðideildar vegna kvörtunarinnar þar sem kveðið var á um að kæranda skyldi veittur aðgangur að öllum gögnum sem lágu til grundvallar einkunn fyrir matsþættina „þátttaka og virkni“ og „hópaverkefni“ í námskeiðinu Nýsköpun 115F. Með niðurstöðunni fylgdu umbeðin gögn, þ.m.t. afrit af framvinduyfirlitum samnemenda kæranda á námskeiðinu.

Sama dag sendi kærandi tölvupóst á deildarforseta viðskiptafræðideildar og óskaði eftir nöfnum þeirra samnemenda sinna sem hefðu skrifað nefnd framvinduyfirlit. Deildarforseti viðskiptafræðideildar hafnaði þeirri beiðni en tiltók að höfundar þeirra væru þeir nemendur sem hefðu unnið með kæranda að hópaverkefninu í áfanganum eins og honum væri kunnugt um. Kærandi óskaði þá eftir rökstuðningi á þeirri ákvörðun að fjarlægja nöfn höfunda framvinduyfirlita.

Kærandi sendi deildarforseta tölvupóst á ný þann 4. apríl 2022 og ítrekaði beiðni sína um afhendingu framvinduyfirlita með nöfnum höfunda þeirra. Deildarforseti svaraði sama dag og upplýsti að erindinu yrði svarað og vonandi á sem stystum tíma. Kærandi svaraði með tölvupósti seinna sama dag þar sem hann ítrekaði beiðni sína um rökstuðning fyrir synjun og óskaði jafnframt eftir upplýsingum um tölvupóstfang háskólaráðs svo hann gæti skotið ágreiningsefninu þangað.

Þann 6. apríl 2022 sendi kærandi rektor HÍ tölvupóst sem innihélt drög að kvörtunum til umboðsmanns Alþingis og til Persónuverndar. Rektor HÍ staðfesti móttöku með tölvupósti sama dag og upplýsti jafnframt að hann liti svo á að með erindinu hefði kærandi skotið niðurstöðu deildaforseta til háskólaráðs skv. 50. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009.

Þennan sama dag sendi deildarforseti viðskiptafræðideildar svo tölvupóst á kæranda með rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun sinni að afhenda kæranda framvinduyfirlit án þess að nöfn nemenda væru birt.

Með tölvupósti þann 7. apríl 2022 tilkynnti rektor HÍ kæranda að mál hans yrði tekið fyrir á háskólaráðsfundi í maí. Sama dag sendi kærandi tölvupóst á deildarforseta viðskiptafræðideildar og óskaði formlega eftir því að hann endurupptæki þá ákvörðun að synja kæranda um afhendingu umbeðinna gagna á þeim forsendum að ákvörðun deildarforseta hefði verið haldin efnislegum annmarka. Degi síðar, þann 8. apríl 2022, svaraði deildarforseti viðskiptafræðideildar kæranda að hann hefði lokið umfjöllun um mál kæranda og það væri nú á borði háskólaráðs. Þann sama dag sendi kærandi tölvupóst á rektor HÍ og óskaði eftir því að mál hans yrði tekið af dagskrá háskólaráðs.

Þann 11. apríl 2022 sendi kærandi tölvupóst þar sem hann óskað eftir staðfestingu þess að mál hans hefði verið verið tekið af dagskrá háskólaráðsfundar. Degi síðar staðfesti rektor HÍ að málið hefði verið tekið af dagskrá fundarins að beiðni kæranda.

Deildarforseti viðskiptafræðideildar sendi tölvupóst til kæranda þann 13. apríl 2022 þar sem ítrekað var að erindi kæranda hefði þegar verið svarað og að engu væri að bæta við fyrri svör nema þá helst að vekja athygli kæranda á að ekki væri til staðar skylda til þess að rökstyðja skriflega prófúrlausnir. Þá vakti deildarforseti athygli á því að kærandi ætti væntanlega enn kost á því að bera málið undir háskólaráð. Frekari samskipti áttu sér stað milli kæranda og deildarforseta en ekki er tilefni til að rekja þau efnislega.

Hagsmunafulltrúi stúdentaráðs HÍ sendi kæranda og deildarforseta tölvupóst þann 13. apríl 2022 og lagði þar til að kærandi og deildarforseti myndu funda um þá stöðu sem upp væri komin. Kærandi sagðist ekki mæta á fund fyrr en hann fengi rökstuðning sem „a.m.k. héldi vatni“ og að hann teldi réttast að hópmeðlimir hans í umræddu hópaverkefni mættu einnig á þann fund.

Þann 19. apríl 2022 sendi kærandi kæru til háskólaráðs með tölvupósti til rektors HÍ og tók fram að hann vænti þess að málið yrði tekið fyrir á fyrirhuguðum fundi háskólaráðs þann 5. maí 2022. Rektor staðfesti móttöku kvörtunarinnar og meðfylgjandi gagna með tölvupósti 20. apríl 2022. Kvaðst hann ekki eiga von á að málið yrði afgreitt á fundi ráðsins í maí en að ákvörðun yrði tekin í málinu svo fljótt sem unnt væri. Kærandi svaraði póstinum samdægurs og kvaðst vilja virkja „3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga“. Spurðist hann þar fyrir um hvort hann hefði kæruheimild til menntamálaráðuneytis vegna „endalausrar málsmeðferðar innan skólans“.

Rektor HÍ svaraði kæranda með tölvupósti sama dag þar sem fram kom að fyrirséð væri að mál kæranda yrði ekki tekið fyrir á fundi háskólaráðs 5. maí þar sem kærunefnd í málefnum nemenda ynni að áliti í máli kæranda og þyrfti tíma til þess. Þá kom fram að málið væri í hefðbundinni málsmeðferð á vettvangi háskólaráðs og að niðurstaða myndi liggja fyrir eins fljótt og verða mætti, en stefnt væri að því að taka málið fyrir á fundi háskólaráðs 2. júní 2022.

Sama dag kærði kærandi málsmeðferðina til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema.

Degi síðar, þann 21. apríl 2022, sendi kærandi tölvupóst á alla meðlimi kærunefndar í málum háskólanema þar sem hann óskaði eftir ástæðu þess að nefndin hygðist tefja mál hans með því að skila áliti sínu ekki í tæka tíð fyrir fund háskólaráðs 5. maí.

Formaður kærunefndar í málum háskólanema staðfesti móttöku erindisins með tölvupósti þann 24. apríl 2022 og upplýsti kæranda um að nefndin kæmi saman á þriðjudeginum 26. apríl og að erindi hans yrði svarað í kjölfarið.

Þann 26. apríl 2022 sendi ritari kærunefndar í málum háskólanema póst á kæranda og upplýsti að nefndin hefði fundað um mál hans fyrr um daginn. Fyrirséð væri að niðurstaða nefndarinnar lægi ekki fyrir áður en gögn vegna næsta fundar háskólaráðs yrðu send út. Mál kæranda yrði því ekki tekið fyrir fyrr en í júní á vettvangi ráðsins.

Kærunefnd í málefnum háskólanema óskaði þann 26. apríl 2022 eftir svörum hjá umsjónarkennara námskeiðsins við tilteknum atriðum er vörðuðu umþrætt námsmat, en ekki hefur þýðingu hér að rekja efni fyrirspurnarinnar sérstaklega.

Svör bárust frá kennaranum þann 28. apríl 2022 og var kæranda þann 2. maí 2022 veittur kostur á því að kynna sér þau og tjá sig um efni þeirra með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi svaraði þann 2. maí 2022 með tölvupósti og krafðist þess m.a. að háskólaráð myndi klára málið þann 5. maí á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga.

Formaður kærunefndar í málum háskólanema svaraði kæranda þann 3. maí 2022 og ítrekaði að álit kærunefndarinnar yrði ekki tilbúið í tæka tíð fyrir útsendingu gagna til háskólaráðs. Hafa yrði í huga að kvörtunin væri löng og umtalsvert af gögnum lægi fyrir í málinu. Að auki hefði kærandi dregið kæru sína til baka á sínum tíma.

Frekari samskipti áttu sér stað milli kæranda og formanns kærunefndarinnar, m.a. um framlögð gögn í málinu, en ekki er þörf á að rekja þau hér.

Þann 4. maí 2022 sendi kærandi tölvupóst m.a. á rektor HÍ og krafðist þess að mál hans yrði tekið fyrir á fundi háskólaráðs degi síðar, þann 5. maí 2022. Í tölvupósti kæranda kom m.a. fram að HÍ hefði brotið gegn rétti hans til hraðrar málsmeðferðar.

Þann 5. maí 2022 svaraði rektor HÍ tölvupósti kæranda og ítrekaði að mál hans yrði tekið fyrir á júnífundi háskólaráðs, eftir að álit kærunefndarinnar lægi fyrir.

Kærandi sendi eftir þetta fjölda tölvupósta út maí mánuð 2022, m.a. til umsjónakennara, menntamálaráðuneytis, nefndarmanna í áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema og annarra aðila. Ekki er tilefni til þess að rekja þessi samskipti hér.

Þann 31. maí 2022 skilaði kærunefnd í málefnum nemenda við HÍ af sér áliti á kæru kæranda til háskólaráðs. Lagði nefndin til við háskólaráð að umsjónarkennaranum í námskeiðinu Nýsköpun 115F yrði falið að endurmeta einkunnagjöf kæranda vegna þáttarins „þátttaka og virkni“ og að við það endurmat skyldi kennarinn hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í áliti nefndarinnar. Þá lagði til nefndin til að öðrum kröfum kæranda yrði hafnað.

Í álitinu kom einnig fram að nefndin teldi að bréf forstöðumanns viðskiptafræðistofnunar HÍ hefði komið fram seint og að synjun á erindi kæranda hefði verið byggð á röngum lagalegum forsendum. Að öðru leyti væri ekki tilefni til athugasemda við málsmeðferð HÍ í málinu.

Þann 9. júní 2022 tók háskólaráð kæru kæranda til úrskurðar og komst að eftirfarandi niðurstöðu:

Háskólaráð hefur farið yfir álit kærunefndar auk annarra gagna málsins. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í áliti nefndarinnar hafnar háskólaráð kröfum kæranda um að fá aðgang að nöfnum þeirra sem rituðu framvinduyfirlitin, en varðandi einkunn fyrir þáttinn „þátttaka og virkni“ í námskeiðinu Nýsköpun (115F) er litið svo á að um sé að ræða faglegt mat kennarans, sbr. 2. mgr. 56. gr. og 1. mgr. 60. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, þar sem kveðið er á um að kennarar standa fyrir námsmati og prófum, ráða úrlausnarefni í hverri prófgrein og dæma úrlausnir. Háskólaráð sendir álit kærunefndar til deildar og umsjónarkennara til kynningar, m.a. með það í huga hvort tilefni geti verið til endurmats.“

III.

Málsástæður kæranda

Kærandi byggir á því að málsmeðferð HÍ á gagnabeiðni kæranda frá 23. desember 2021 hafi brotið gegn 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um málshraða.

Þá telur kærandi jafnframt að háskólaráði hafi borið að taka erindi hans um afhendingu gagna til afgreiðslu á fundi sínum þann 5. maí sl.

IV.

Málsástæður Háskóla Íslands

HÍ byggir á því að málsmeðferð HÍ við meðferð á erindi kæranda frá 23. desember 2021 hafi verið í fullu samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga að öðru leyti en því að viðurkennt er af hálfu HÍ að fullmikill dráttur hafi orðið á því að bréf viðskiptafræðistofnunar, þar sem gagnabeiðni kæranda var synjað, bærist kæranda. Þannig hefur komið fram af hálfu skólans að starfsmaður viðskiptafræðistofnunar hefði með réttu átt að að áframsenda erindi kæranda til deildarforseta viðskiptafræðideildar um leið og það barst, en skólinn telur þó að líta eigi til þess að starfsmaðurinn hafi verið nýr í starfi og að erindi kæranda hafi ekki verið sérstaklega beint til deildarforseta með tilvísun til 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 568/2009.

V.

Álit

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort að málsmeðferð HÍ á gagnabeiðni kæranda frá 23. desember 2021 hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti að því er varðar málshraða við afgreiðslu erindis kæranda.

Í 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema kemur fram að nemanda sé heimilt að bera undir nefndina hvort málsmeðferð háskóla á skriflegu erindi hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti og skal nefndin veita álit sitt um það efni.

Kærandi hefur þegar kært úrskurð háskólaráðs frá 9. júní sl. í máli hans til áfrýjunarnefndarinnar. Þar sem vinna við mál þetta var komin vel á veg við það tímamark, þar sem nefndin hafði m.a. þegar fundað með kæranda og fulltrúa HÍ, óskaði nefndin eftir afstöðu kæranda hvort hann vildi að mál hans yrði afgreitt af nefndinni í heild sinni við úrlausn á síðari kæru kæranda frá 12. júní 2022 eða hvort hann óskaði eftir því að málin yrðu afgreidd hvort í sínu lagi. Kærandi óskaði eftir því við nefndina að kærur hans yrðu teknar fyrir í hvor í sínu lagi og að nefndin veitti sérstaklega álit sitt á málsmeðferð HÍ á gagnabeiðni hans frá 23. desember 2021. Með vísan til áðurnefndrar 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 er fallist á þá beiðni kæranda.

Í 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 er fjallað um ferli kvartana og kærumála nemenda. Þar kemur fram að telji stúdent brotið á rétti sínum varðandi kennslu, próf, námsmat, einkunnagjöf, mat á námsframvindu eða annað sem lýtur að kennslu og prófum skuli hann senda skriflegt erindi á deildarforseta. Þá kemur jafnframt fram að deildarforseti skuli afgreiða álitaefnið svo fljótt sem unnt er og afgreiða það að jafnaði eigi síðar en innan tveggja mánaða frá því erindið barst.

Frá því að kærandi sendi erindi sitt til viðskiptafræðistofnunar 23. desember 2021 og þar til forstöðumaður stofnunarinnar leiðbeindi honum um að skjóta erindi sínu til deildarforseta með tölvupósti 17. febrúar 2022, var erindi kæranda í röngum farvegi innan HÍ og ekki í samræmi við reglur nr. 569/2009.

Með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði HÍ borið að leiðbeina kæranda um það strax í upphafi að honum væri rétt að senda erindi sitt til deildarforseta, í samræmi við reglur HÍ, en að öðrum kosti hefði skólanum verið rétt að tryggja að erindi kæranda yrði framsent til deildarforseta til afgreiðslu og jafnframt upplýsa kæranda um þá ráðstöfun. Að mati nefndarinnar hefði það verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og til þess fallið að tryggja að erindi kæranda kæmist tímanlega til úrlausnar hjá til þess bærum aðila. Er það álit nefndarinnar að málsmeðferð HÍ á máli kæranda að því er þennan þátt varðar hafi ekki verið í samræmi við 7. og 9. gr. stjórnsýslulaga.

Í athugasemdum til áfrýjunarnefndarinnar frá 30. maí 2022 hefur HÍ fallist á þetta og viðurkennt að forstöðumaður viðskiptafræðistofnunar hefði með réttu átt að áframsenda erindi kæranda til deildarforseta viðskiptafræðideildar.

Með vísan til framangreinds telur nefndin rétt að beina því til HÍ að gæta þess að starfsmenn skólans séu upplýstir um og leiðbeini nemendum sem leggja fram kvartanir, kærur, beiðni um upplýsingar eða önnur erindi, um hvert rétt sé að beina slíkum erindum þannig að mál komist í réttan farveg í samræmi við reglur HÍ.

Eftir að beiðni kæranda var loks komin í réttan farveg bar deildarforseta viðskiptafræðideildar að hraða afgreiðslu á erindi kæranda eins og kostur var, í samræmi við skráðar og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins, sbr. m.a. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1993 og 50. gr. reglna nr. 569/2009. Var þetta einkum brýnt vegna þeirra tafa sem þegar höfðu orðið á afgreiðslu gagnabeiðninnar.

Að framlögðum gögnum virtum er það mat nefndarinnar að málsmeðferð HÍ eftir að erindið kæranda barst deildarforseta hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti. Nefndin telur rétt að halda því til haga að kærandi dró til baka beiðni sína um að niðurstaða deildarforseta yrði tekin fyrir af háskólaráði þann 6. apríl 2022. Með tölvupósti þann 19. apríl 2022 óskaði kærandi svo eftir því aftur að niðurstaða deildarforseta yrði tekin fyrir af háskólaráði á fundi þess þann 5. maí 2022.

Að mati nefndarinnar má rekja þær tafir sem urðu til þess að mál kæranda komst ekki á dagskrá fundar háskólaráðs þann 5. maí 2022 til þess að kærandi dró erindi sitt til baka og krafðist þess að það yrði tekið af dagskrá fundar háskólaráðs, líkt og áður er rakið. Þegar kærandi óskaði síðan eftir því á ný að mál hans yrði tekið fyrir af háskólaráði var hann upplýstur um það án tafar að ekki yrði unnt að afgreiða máls hans á fundi háskólaráðs þann 5. maí 2022 með vísan til þess að leita þyrfti álits kærunefndar í málefnum nemenda ásamt því að afhenda fulltrúum í háskólaráði gögn málsins tímanlega fyrir fundinn. Eru þetta málefnaleg sjónarmið að mati nefndarinnar og í samræmi við 3. mgr. 50. gr. reglna nr. 569/2009. Með hliðsjón af þessu er það álit nefndarinnar að málsmeðferð HÍ að því er varðar málskot kæranda til háskólaráðs hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga.

Elvar Jónsson

 

Eva Halldórsdóttir                                         Pétur Marteinn Urbancic Tómasson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum